Það er eitthvað við leirinn sem er svo hversdagslegt og jarðbundið — og einmitt það finnst mér heillandi.
Hann tengist okkar dýpstu þörfum — að næra okkur, safna saman og varðveita, að halda utan um það sem raunverulega skiptir máli.
Ég hef starfað í mörg ár innan leikhússins og unnið þar með efni á óhefðbundinn og tilraunakenndan hátt.
Í gegnum árin hef ég skapað sýningar úr pappír plasti, mold, leir og öðrum efnum, þar sem efnið sjálft hefur verið lifandi hluti af frásögninni.
Á síðustu árum hefur hins vegar opnast ný uppspretta sem hefur leitt mig inn í heim leirmuna og keramiklistar.
Það er eitthvað svo kunnuglegt við leirinn — áferðin og snertingin.
Að vinna með leirinn er fyrir mig eins og að koma heim; það er eins og efnið tali beint til líkamans.
Ég kýs að vinna hægt og set mikla nákvæmni og athygli í hvern hlut. Þetta er ekki fjöldaframleiðsla heldur hæg og nærandi ástundun, þar sem tíminn, þolinmæðin og ferlið sjálft eru jafn mikilvæg og útkoman.
Í verkunum mínum leita ég að samspili lita og mynsturs, að leyfa smá dramatík og leikgleði að fylgja með í ferlinu.
Hver listmunur er einstakur.
Hér má sjá nokkra leirmuni sem ég hef skapað og býð til sölu
Ég sel vörurnar mínar eins og er beint frá verkstæðinu.
Endilega hafðu samband ef þú hefur áhuga á að kaupa eitthvað af mér.









